News

Listasafn Islands

SÝNINGALOK Í HAFNARHÚSINU SUNNUDAGINN 27. APRÍL

Sýningunum sem lýkur á sunnudaginn eru:

SIGURÐUR GUÐMUNDSSON - MÁLLAUSIR KJARNAR
Sigurður Guðmundsson er einn af virtustu listamönnum þjóðarinnar. Á sýningunni Mállausir kjarnar eru um tuttugu stór ljósmyndaverk sem aldrei hafa verið sýnd áður.  Þetta eru fyrstu ljósmyndaverk Sigurðar síðan 1980.  Sigurður Guðmundsson hefur sýnt verk sín í flestum stórborgum Evrópu og víða er að finna stórar höggmyndir eftir hann í opnu rými á Norðurlöndum og Mið-Evrópu. 

ÞÖGN
Þögnin á sér ólíkar birtingarmyndir en á sýningunni er varpað ljósi á það hversu þögnin er vanmetin og það hvernig hún hefur að vissu leyti snúist upp í áreiti í okkar nútíma samfélagi.
Fyrir sýninguna hefur sýningarstjórinn JBK Ransu valið fjóra kunna myndlistarmenn; þau Finnboga Pétursson, Finn Arnar Arnarson, Harald Jónsson og Hörpu Árnadóttur til að gefa sig á vald þagnarinnar. Listaverk þeirra eru unnin með ólíkri nálgun á viðfangsefninu en með sama markmið: Að skapa vettvang þar sem þögn ríkir. 

D-8 GUNNHILDUR HAUKSDÓTTIR
Gunnhildur Hauksdóttir vinnur innsetningar, myndbandsverk og gjörninga oft með einföldum vísunum sem opnar eru fyrir túlkun áhorfandans og fjalla um manninn, umhverfi hans og viðmið. Sýningarstjóri Ólöf K. Sigurðardóttir.

ERRÓ - OFURHETJUR
Á þessari sýningu á verkum Errós eru ofurhetjur í aðalhlutverki. Þar eru meðal annars tvö stór verk sem sækja myndefni beint í kraftmikinn heim myndasagna. Þetta eru Vísindaskáldskaparvíðátta, sem er rúmlega 13 metrar að lengd og stærsta  verk Errós í eigu Listasafns Reykjavíkur og Leyndardómurinn afhjúpaður, sem einnig er risastórt verk sem segir kraftmikla sögu. Meðal annarra verka á sýningunni er Ghost Rider eða Næturriddari en á síðasta ári var gerð kvikmynd eftir samnefndri persónu, sem skartar Nicolas Cage í aðalhlutverki.

 

 

T I L R A U N A M A R A Þ O N - OPNAÐ 15. MAÍ!
Tilraunamaraþon er umfangsmesti listviðburður sem Listasafn Reykjavíkur hefur staðið fyrir frá upphafi en að honum koma rúmlega fjörutíu virtir lista- og vísindamenn úr alþjóðasamfélaginu. Tilraunamaraþonið er tvíþætt og skiptist annars vegar í lifandi tilraunastofu, sem verður starfrækt fyrir opnum tjöldum fyrstu daga sýningarinnar og hins vegar innsetningar unnar í ólíka miðla sem standa út sumarið. Sýningunni og verkefninu í heild er stýrt af Hans Ulrich Obrist stjórnanda Serpentine Gallery í London í samstarfi við listamanninn Ólaf Elíasson. Vegleg sýningaskrá fylgir sýningunni og fer hún í alþjóðlega dreifingu.
Tilraunamaraþonið er þungamiðja Listahátíðar í Reykjavík 2008. Sýningin er unnin í samvinnu við Serpentine Gallery, sem hefur í tvígang staðið fyrir sambærilegum viðburði. Bakhjarlar Tilraunamaraþonsin s eru Orkuveita Reykjavíkur og Icelandair.

HAFNARHÚSIÐ ER OPIÐ DAGLEGA 10 - 17, FIMMTUDAGA 10 - 22

LEIÐSÖGN ALLA SUNNUDAGA KL. 15

FRÁ 28. APRÍL - 15. MAÍ VERÐUR HAFNARHÚSIÐ LOKAÐ VEGNA SÝNINGASKIPTA!

AÐGANGUR ÓKEYPIS

LISTASAFN REYKJAVÍKUR ER SAFNIÐ ÞITTPrinted of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 29.12.2015