News

Listasafn Islands

ÁSMUNDARSAFN 25 ÁRA, MIÐVIKUDAGINN 21. MAÍ - NÝTT MARGMIÐLUNARVERKEFNI KYNNT.

Þann 21. maí eru 25 ár liðin frá opnun Ásmundarsafns, sem er eitt af safnhúsum Listasafns Reykjavíkur.  Listasafn Reykjavíkur mun einnig opna formlega nýtt margmiðlunarverkefni um Ásmund Sveinsson sem nefnist Í kálgarði tilverunnar, leiðangur fyrir börn og fullorðna.Verkefnið er byggt á fræðsluefni sem Listasafnið hefur verið að þróa undanfarin ár og hefur staðið grunnskólabörnum, sem heimsækja Ásmundarsafn, til boða. Margmiðlunarverkefnið er aðgengilegt öllum á netinu auk þess sem búið er að koma upp snertiskjá í Ásmundarsafni sem ætlaður er gestum.
Slóðin er  http://asmundursveinsson.reykjavik.is

LEIRLISTASMIÐJA Á SUNNUDAGINN
Sunnudaginn 25. maí verður opin leirlistasmiðja í Ásmundarsafni fyrir alla fjölskylduna frá kl. 13 - 16 þar sem börn og fullorðna geta unnið saman.  Byrjað verður á stuttri yfirferð um sýninguna en að henni lokinni er sest niður í vinnustofu með leir og viðeigandi verkfæri til að móta leirinn undir áhrifum frá Ásmundi. Umsjón með listsmiðjunni hefur Sigríður Melrós Ólafsdóttir myndlistarmaður.

SUMARNÁMSKEIÐ - LEIKUR OG LIST FYRIR SUMARKRAKKA
Listasafn Reykjavíkur gengst nú í fyrsta sinn fyrir sumarnámskeiðum fyrir unga listunnendur undir yfirskriftinni Leikur og list fyrir sumarkrakka. Námskeiðið er ætlað börnum á aldrinum 7 - 10 ára og stendur yfir dagana 9. - 20. júní. Skráning er þegar hafin. Á námskeiðinu kynnast börnin verkum Ásmundar, fara í leiðangra og vinna inni á safninu bæði við að teikna og móta í leir. Einnig er vert að benda á að á Kjarvalsstöðum er boðið upp á sambærilegt námskeið sem stendur yfir dagana 23. júní - 4. júlí.

ÁSMUNDUR SVEINSSON
Ásmundur Sveinsson (1893-1982) var einn af frumkvöðlum höggmyndlistar á Ís landi og sótti innblástur í íslenska náttúru og bókmenntir sem og til þjóðarinnar sjálfrar. Ásmundur hannaði að mestu sjálfur og byggði Ásmundarsafn á árunum 1942-1950. Formhugmyndir hússins eru sóttar til Miðjarðarhafsins, í kúluhús araba og píramída Egyptalands. Í byggingunni voru bæði heimili og vinnustofa listamannsins. Ásmundur byggði síðar bogalaga byggingu aftan við húsið, sem bæði var hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur, en þannig vildi listamaðurinn gera verk sín aðgengileg fyrir almenning.

Ásmundur Sveinsson ánafnaði Reykjavíkurborg heimili sínu og listaverkum eftir sinn dag og var Ásmundarsafn opnað formlega árið 1983. Nú hafa aðalhúsið og bogabyggingin verið tengd saman með viðbyggingu sem Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hannaði, en hún var tekin í notkun árið 1991. Umhverfis safnið er höggmyndagarður og prýða hann nær þrjátíu höggmyndir listamannsins.

Listasafn Reykjavíkur hefur um árabil gert afsteypur af verkum Ásmundar Sveinssonar sem seldar eru í takmörkuðu upplagi í safnverslunum í Ásmundarsafni, Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum.
Verið velkomin í Ásmundarsafn sem er opið daglega frá kl. 10 - 16.

AÐGANGUR ÓKEYPIS

LISTASAFN REYKJAVÍKUR ER SAFNIÐ ÞITTPrinted of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 02.50.2015