News

Listasafn Islands

Vatnsberinn kominn heim

Vatnsberinn kominn heim. Um er að ræða afstöðumynd, sem sýnir ekki endanlega útfærslu á verkinu.

Vatnsberinn kominn heim. Um er að ræða afstöðumynd, sem sýnir ekki endanlega útfærslu á verkinu.
Til vinstri á myndinni (í Bankastrætinu) hefur brunninum verið bætt inn á til að sýna staðsetningu hans undir gangstéttinni.


Borgarráð hefur samþykkt að höggmyndin Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinsson verði flutt ofan af holtinu við Veðurstofu Íslands og hún staðsett á horni Lækjargötu og Bankastrætis, samkvæmt tillögu Listasafns Reykjavíkur.

Ásmundur Sveinsson var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var á meðal þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýja formskrift í myndlist 20. aldar. Verkum hans var ekki alltaf jafn vel tekið, en með tímanum hafa þau fest sig í sessi sem ein af birtingarmyndum íslenskrar sagnahefðar, samfélags og náttúru á 20. öld. Hann sótti innblástur í íslenska náttúru og bókmenntir. Ásmundur lauk við Vatnsberann árið 1937 og er hann eitt þekktasta verk hans.

Talið er að Vatnsberanum hafi verið ætlað að standa nálægt Bernhöftsbrunninum, sem var síðasti brunnurinn í Reykjavík, til minningar um vatnsberana sem settu svip sinn á gamla miðbæinn í kringum aldamótin 1900. Brunnurinn var staðsettur í bakarabrekkunni svokölluðu, nánar tiltekið á Bakarastíg sem nú er Bankastræti. Brunnurinn og bakarabrekkan draga nöfn sín af Tönnes Daniel Bernhöft bakara, sem rak bakarí þar sem nú er Bankastræti 2 allt frá 1845. Bernhöft var athafnamaður og lét grafa brunn vestan við bakaríið.

Þó nokkrar deilur komu upp þegar staðsetja átti Vatnsberann í borgarlandinu á sínum tíma, en höggmyndin hefur staðið á holtinu við Veðurstofu Íslands frá árinu 1967. Segja má að styttan verði komin heim þegar búið verður að koma henni fyrir á horni Lækjargötu og Bankastrætis en unnið er að útfærslu flutningsins sem fram mun fara á næstu vikum.Printed of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 30.37.2015