News

Listasafn Islands

Norræn samtímalist leggur undir sig sýningarstaðina á Listahátíð í Reykjavík 2012

 Umfangsmikið myndlistarverkefni sem hlotið hefur norrænan styrk.
Listahátíð í Reykjavík í samstarfi við Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Nýlistasafnið, Norræna húsið og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar undirbýr nú umfangsmikið myndlistarverkefni fyrir Listahátíð 2012. Verkefnið hefur hlotið styrk úr norræna sjóðnum Kultur Kontakt Nord og hefur ráðið til sín sýningarstjórann Jonatan Habib Engqvist sem mun stýra verkefninu ásamt verkefnisstjóra, Kristínu Scheving.

Jonatan Habib EngqvistSýningarstjóri Jonatan Habib Engqvist.
Jonatan er listheimspekingur, rithöfundur og sýningarstjóri búsettur í Stokkhólmi. Hann hefur unnið að alþjóðlegum sýningum og verkefnum undanfarin ár, meðal annars sem sýningarstjóri á Moderna museet i Stokkhólmi. Hann hefur jafnframt starfað sem ritstjóri og skrifað greinar fyrir ýmis erlend tímarit. Hann hefur einnig haldið fyrirlestra um heimspeki, list og arkitektúr.


Hvað merkir að vera norrænn myndlistarmaður árið 2012?
Norræn myndlist í víðum skilningi, frumkvæði og listamannarekin rými, eru þungamiðja verkefnisins. Sjónum verður beint að samspili grasrótarstarfs og safna í norrænni myndlist. Hvaða þýðingu hefur það að vera norrænn myndlistarmaður árið 2012 er ein þeirra spurninga sem sýningarstjórinn vinnur út frá, en hann þróar nú hugmyndina, rannsakar og velur listafólk til þátttöku. Listamennirnir verða flestir frá Norðurlöndunum þ.m.t. Íslandi.

Haldið verður málþing í tengslum við sýningarnar þar sem rætt verður um norrænt samstarf og listamannrekin rými frá sjónarhóli listamannsins. Jafnframt verður fjallað um samvinnugrundvöll milli norrænna listamanna og sýningarstaða.

Sýningarnar hefjast við upphaf Listahátíðar í vor.


Sýningar verða í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Nýló, Norræna húsinu og víðar. Viðburðurinn verður vel kynntur á erlendri grundu og í tilefni viðburðarins verður boðið hingað virtum erlendum blaðamönnum víðs vegar að úr heiminum. Sýningarnar hefjast allar við upphaf Listahátíðar í vor, dagana 18.- 20. maí – og þær munu svo flestar standa fram eftir sumri.Printed of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 06.18.2015