Um rannsóknarverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins, Kviksögu og Íslandsmyndir

Um Íslandsmyndir

Íslandsmyndir er yfirheiti á fjölbreyttum kvikmyndum sem eiga það 
sameiginlegt að fjalla um Ísland og Íslendinga. Myndirnar eru 
margvíslegar að eðli, s.s. fræðslumyndir, persónulegar ferðasögur, 
pólitískar áróðursmyndir, sölumyndbönd flugfélaga, fiskiðnaðarins eða 
landbúnaðarvöruframleiðenda og myndir sem skreyttu ræður 
farandfyrirlesara. Kvikmyndirnar viðhalda og endurskapa ákveðnar 
ímyndir sem tekið höfðu að mótast á 18. og 19. öld.  Samfélagið 
breytist og Íslandsmyndir með en takmarkanir miðilsins setja 
umfjöllunarefninu einnig nokkrar skorður. Íslensk tunga hvarf nánast 
sem viðfangsefni, enda ekki mjög myndvæn. Saga Íslands missti vægi og 
tengdist Þingvöllum og styttum af þjóðhetjum nánum böndum. En 
náttúran hófst til vegs og virðingar. Íslendingar voru (og eru) 
náttúrubörn í Íslandsmyndum en þegar kom fram á 5. áratug 20. aldar 
urðu náttúrubörnin tæknivædd. Íslendingar, einkum íslenskir karlmenn, 
voru umfram allt sjómenn og bændur sem börðust við náttúruöflin til 
að færa björg í bú en höfðu jafnframt sigrast á náttúrunni með því að 
virkja hana til húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Er þetta ef til 
vill svipuð ímynd og við sjáum í Íslandsmyndum nútímans? Þetta er 
meðal þess sem kannað verður í sýningum og umræðum Kviksögu í vetur.

Um Kviksögu

Kviksaga er félagskapur um kvikmyndalist og fræði. Það er vettvangur 
fræði- og áhugamanna á því sviði þar sem fræði og kvikmyndalist 
mætast t.d. við gerð heimildamynda, vídeólistar, kennsluefnis eða 
sjónrænna rannsókna á menningu og listum.  Kviksaga stuðlar einnig að 
rannsókn á sjálfu kvikmyndaforminu og er vettvangur fyrir áhugasama 
til að mætast, ræða og vinna saman. Á síðastliðnu ári hefur Kviksaga 
efnt til sýninga á heimildamyndum ásamt fræðilegri umfjöllun,  haldið 
námskeið og staðið að kvikmyndahátið. Áfram verður staðið að 
viðburðum og á vefritinu Kviksögu www.kviksaga.is verður að finna 
ritstýrðar greinar, viðtöl, tilkynningar og myndbrot á sviði fræða og 
kvikmyndlistar. Skrifstofa Kviksögu í ReykjavíkurAkademíunni er öllum 
opin til skrafs og ráðagerða og til afnota af myndefni og tengslaneti 
miðstöðvarinnar.  Upplýsingar í 8661940 og kviksaga@akademia.is

Síðastliðið ár stóð Kviksaga meðal annars að viðburðum í Tjarnarbíóí 
í samvinnu við Fjalaköttinn þar sem saman fóru sýningar á 
heimildamyndum, tónlistarflutningur, fræðileg umfjöllun og samræður 
við kvikmyndgerðamenn.  Af myndum má nefna svokallaðar Íslandsmyndir 
sem spanna alla tuttugustu öldina, video- og tónlistarverkið 
Lífsblómið, heimildamyndir um frásagnir sjúkraflutningamanna í 
Kaliforníu og leigubílstjóra í Edinborg og um pönkbylgju í Suður-
Kóreu.  Þá má nefna viðburði sem sérstaklega voru helgaðir verkum í  
vinnslu þar sem kvikmyndagerðamenn sýndu brot úr verkum sín, ræddu 
undanfara og næstu skref við áhorfendur.

Um rannsóknarverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins

Rannsóknaverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins (INOR) byggist á 
samstarfi íslenskra og erlendra fræðimanna á þessu sviði, alls 20 
fræðimenn. Flestir fræðimannanna koma frá ReykjavíkurAkademíunni og 
þar hefur verkefnið aðsetur. En auk þess tengjast margir aðrir 
erlendir og innlendir fræðimenn verkefninu og INOR hefur samstarf við 
rannsóknarhópa í Kiel í Þýskalandi, Umeå í Svíþjóð og Tromsö í 
Noregi. Á vegum verkefnisins er unnið að rannsóknum á birtingarmyndum 
ímynda Íslands í samtímanum sem hluta norðursins, hvernig þær hafa 
sprottið fram sögulega og breyst í tímans rás og hvert þær stefna. 
Útgáfa á rannsóknarniðurstöðum er áætluð árið 2010 þegar verkefninu 
lýkur. Á vegum verkefnisins er einnig umtalsverð útgáfa, bæði á 
íslensku og ensku, námskeiðshald um ímyndir og kynningar á kvikmyndum 
þar sem fjallað er um Ísland, sjá nánar heimasíðu verkefnisins, 
www.inor.is.

 

 

Print
 

Mobile | Contact us | Sitemap | Large/small     

 

 

Hafnarhus

Visit the museum
Open: 10:00 - 17:00
Thursday 10:00 - 20:00
 

Kjarvalsstadir

Visit the museum
Open 10 a.m. - 5 p.m.

 

 

 

Asmundarsafn

Visit the museum
1. May - 30. Sep. 10-5
1. Oct. - 30. Apr. 1-5